Jákvæðar fréttir af landsliðsfyrirliðanum

Aron Einar Gunnarsson missti af stórleiknum gegn Al-Sadd í gær …
Aron Einar Gunnarsson missti af stórleiknum gegn Al-Sadd í gær vegna meiðsla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Al-Arabi í katörsku úrvalsdeildinni, verður að öllum líkindum orðinn leikfær miðvikudaginn 3. mars þegar Al-Arabi heimsækir Al-Sailiya í katarska Emír-bikarnum.

Þetta staðfesti Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari Al-Arabi, í samtali við mbl.is í dag en Aron Einar meiddist í upphitun fyrir leikinn gegn Al-Sadd á útivelli í gær.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Al-Sadd en Al-Arabi komst tvívegis yfir í leiknum áður en Al-Sadd jafnaði metin á 90. mínútu og Santi Cazorla skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

„Aron festist í hálsinum í upphitun og gat og getur ekki hreyft sig alveg eðlilega eins og staðan er í dag,“ sagði Freyr í samtali við mbl.is.

„Þetta er ekkert alvarlegt og mun ekki hafa nein áhrif á landsleiki Íslands í undankeppni HM í næsta mánuði. 

Þetta mýkist vonandi upp í vikunni og vonandi endurtekur sig þetta ekki. Við reiknum með því að hann verði klár í bikarleikinn gegn Al-Sailiya 3. mars,“ bætti Freyr við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert