Ítalir skoruðu tólf og fara á EM

Ítalska landsliðið er komið á EM.
Ítalska landsliðið er komið á EM. Ljósmynd/Liondartois

Ítalía varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu 2022 án þess að þurfa að fara í umspil.

Ítalska liðið vann yfirburðasigur á Ísrael, 12:0, í síðasta leik B-riðils. Ítalía fékk þar með 25 stig af 30 mögulegum en Danmörk vann riðilinn með 28 stig.

Ítalía er því með besta árangurinn í öðru sæti undanriðlanna, næst á undan Íslandi og Austurríki, en þessar þrjár þjóðir fara beint á EM sem bestu liðin í öðru sæti riðlanna. Sviss datt fyrir vikið niður í fjórða sæti og fer í umspil ásamt Portúgal, Rússlandi, Tékklandi, Úkraínu og Norður-Írlandi þar sem leikið verður um síðustu þrjú sætin í lokakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert