Lést eftir tveggja ára baráttu við krabbamein

Willy Ta Bi í leik með Atalanta.
Willy Ta Bi í leik með Atalanta. Ljósmynd/@Atalanta_BC

Willy Ta Bi, leikmaður ítalska knattspyrnufélagsins Atalanta, lést í gær eftir tveggja ára baráttu við krabbamein.

Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í morgun en Ta Bi var einungis 21 árs gamall þegar hann lést.

Ta Bi var frá Fílabeinsströndinni en hann gekk til liðs við Atalanta frá Mimosas í ársbyrjun 2019. Miklar vonir voru bundnar við leikmanninn sem var ein af vonarstjörnum félagsins.

Hann varð unglingameistari með varaliði Atalanta um vorið og var svo lánaður til Pescara um sumarið þar sem hann náði aldrei að láta til sín taka eftir að hafa greinst með krabbamein stuttu eftir komuna til Pescara.

„Það er með sorg í hjarta sem við tilkynnum um andlát Willy Ta Bi,“ segir í tilkynningu félagsins á Twitter.

„Hann varð unglingameistari með liðinu 2019 og hugur okkar er hjá aðstandendum hans og ástvinum,“ segir enn fremur í tilkynningu Atalanta.

mbl.is