Velur Þýskaland fram yfir England

Jamal Musiala á fullri ferð í leiknum í gær.
Jamal Musiala á fullri ferð í leiknum í gær. AFP

Jamal Musiala, leikmaður knattspyrnuliðs Bayern München í Þýskalandi, ætlar sér að spila fyrir Þýskaland í framtíðinni.

Jamal, sem er 17 ára gamall, varð í gær næstyngsti markaskorari í sögu útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar þegar hann var á skotskónum í 4:1-sigri Bayern München gegn Lazio í Róm í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar.

Musiala er fæddur í Þýskalandi og á þýska móður en faðir hans á ættir að rekja til Englands og Nígeríu.

Átta ára gamall flutti hann til Englands þar sem hann lék með Chelsea í átta ár áður en hann sneri aftur til Þýskalands.

„Ég hef velt þessari ákvörðun lengi fyrir mér,“ sagði Musiala í samtali við fjölmiðla.

„Að lokum ákvað ég að fylgja hjartanu og hlusta á tilfinningar mínar sem sögðu mér að velja Þýskaland.

Þar er ég fæddur en þetta var langt frá því að vera auðveld ákvörðun fyrir mig,“ bætti Musiala við en hann á að baki leiki með U21-árs landsliði Englands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert