Aubameyang hetja Arsenal – Molde skellti Hoffenheim

Pierre-Emerick Aubameyang fagnar fyrra marki sínu ásamt Bukayo Saka, sem …
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar fyrra marki sínu ásamt Bukayo Saka, sem lagði það upp. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang var hetja Arsenal þegar hann skoraði tvö mörk í 3:2 endurkomusigri liðsins í æsispennandi leik gegn Benfica í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Arsenal vann þar með samanlagðan 4:3  sigur eftir 1:1 jafntefli liðanna í síðustu viku og er komið í 16 liða úrslitin.

Heimaleikur Benfica í síðustu viku fór fram í Róm á Ítalíu og heimaleikur Arsenal í kvöld fór fram í Piraeus í Grikklandi.

Eftir ansi rólega byrjun tók Arsenal forystuna á 21. mínútu. Bukayo Saka átti þá laglega stungusendingu á Aubameyang sem lyfti boltanum fallega í bláhornið fjær, óverjandi fyrir Helton í marki Benfica, 1:0.

Skömmu fyrir leikhlé fékk Benfica aukaspyrnu á álitlegum stað. Diogo Goncalves gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr henni með glæsilegu skoti yfir varnarvegginn og upp í samskeytin, 1:1.

Þannig var staðan í hálfleik.

Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik komust gestirnir í Benfica yfir. Daniel Ceballos gerði sig þá sekan um hræðileg mistök þegar hann skallaði boltann til baka. Rafa Silva las hann eins og opna bók, náði boltanum, potaði honum framhjá Bernd Leno sem kom út á móti og setti boltann svo í autt markið, 1:2.

Nokkrum mínútum síðar jafnaði Arsenal metin. Þá kom Willian boltanum á Kieran Tierney, sem fékk að athafna sig í vítateignum og náði svo þrumuskoti niður í bláhornið fjær, 2:2.

Þremur mínútum fyrir leikslok sneri Arsenal taflinu sér í vil. Saka átti þá frábæra fyrirgjöf af hægri kantinum yfir á fjærstöngina þar sem Aubameyang var mættur og skallaði í netið af stuttu færi, 3:2.

Endurkoma Arsenal þar með fullkomnuð og liðið búið að tryggja sér farseðilinn í 16 liða úrslitin.

Björn Bergmann byrjaði í sigri Molde

Sex aðrir leikir fóru fram á sama tíma í 32ja liða úrslitunum. Óvæntustu úrslit kvöldsins komu í Þýskalandi þar sem norska liðið Molde vann magnaðan 2:0 sigur á Hoffenheim. Fyrri leikurinn fór 3:3 og Molde vann einvígið þar með 5:3 samanlagt.

Eirik Ulland Andersen var hetja liðsins og skoraði bæði mörkin, það síðara á fimmtu mínútu uppbótartíma eftir mikla pressu frá Hoffenheim. Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Molde í kvöld og lék fyrstu 63. mínúturnar.

Rangers, Ajax, Villarreal, Shakhtar Donetsk og Granada tryggðu sér sömuleiðis öll farseðilinn í 16 liða úrslitin.

Rangers vann Antwerp 5:2 og samanlagt 9:5 í fjörugu einvígi, Ajax vann Lille 2:1 og samanlagt 4:2, Villarreal vann Salzburg 2:1 og samanlagt 4:1, Shakhtar vann Maccabi Tel Aviv 1:0 og samanlagt 3:0 og Granada tapaði 1:2 gegn Napoli en vann einvígið samanlagt 3:2.

Eirik Ulland Andersen fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Björn …
Eirik Ulland Andersen fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Björn Bergmann Sigurðarson er í bakgrunni. AFP
Arsenal 3:2 Benfica opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með frábærum endurkomusigri Arsenal!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert