Andri missir af næstu leikjum

Andri Fannar Baldursson á landsliðsæfingu.
Andri Fannar Baldursson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn ungi Andri Fannar Baldursson verður ekki með ítalska liðinu Bologna í næstu leikjum þess í A-deildinni.

Félagið skýrði frá því í dag að hann ætti við vöðvatognun að stríða og þyrfti tvær til þrjár vikur til að jafna sig. Hann myndi ekki vera í hópnum í leikjum gegn Lazio, Cagliari og Napoli á næstu vikum en gæti möguleika komið inn á ný þegar Bologna mætir Sampdoria 14. mars eða gegn Crotone 20. mars.

Andri varð 19 ára í janúar og hefur leikið fimm leiki með Bologna í A-deildinni í vetur, einn þeirra í byrjunarliðinu, og verið í hópnum í öllum leikjum liðsins. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Belgíu í september 2020 og var í byrjunarliðinu í þremur síðustu leikjum 21-árs landsliðsins í undankeppni EM síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert