Vilja að Norðmenn hafni HM í Katar

Leikvangurinn í Ar-Rayyan er eitt þeirra glæsimannvirkja sem hafa risið …
Leikvangurinn í Ar-Rayyan er eitt þeirra glæsimannvirkja sem hafa risið í Katar síðustu ár vegna HM 2022. AFP

Norska knattspyrnufélagið Tromsö skoraði í dag á norska knattspyrnusambandið að senda ekki karlalandslið þjóðarinnar á heimsmeistaramótið í Katar í árslok 2022, fari svo að það vinni sér keppnisrétt þar.

Í yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu Tromsö í dag segir að fram til þessa hafi Norðmenn gagnrýnt og rætt opinberlega um þann slæma aðbúnað sem verkafólk í Katar hafi búið við þegar það hefur reist knattspyrnuleikvangana fyrir heimsmeistaramótið á undanförnum árum en upplýst hefur verið að um 6.500 manns haf látist í vinnuslysum tengdum því.

„Við getum ekki lengur setið og horft upp á fólk deyja í nafni knattspyrnunnar. Nú er kominn tími til að láta hart mæta hörðu. Knattspyrnan getur ekki stýrt innri málum allra heimsins þjóða en það sem við getum gert er að gera eðlilegar kröfur til þeirra knattspyrnumóta sem við tökum þátt í.

Tromsö skorar á norska knattspyrnusambandið að hunsa heimsmeistaramótið 2022. Við teljum að ef Noregur kemst í gegnum undankeppnina sem er framundan eigum við að neita því að fara til Katar," segir m.a. í yfirlýsingu félagsins.

Fjölmargir hafa tekið opinberlega undir kröfur Tromsö, m.a. Tom Högli, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs og Dag Lindseth Andersen, framkvæmdastjóri Strömsgodset.

Terje Svendsen, forseti norska knattspyrnusambandsins, sagði við NRK í dag að það þýddi lítið að grípa til svona aðgerða ef engir aðrir en Norðmenn taki þátt í því.

Norðmenn eru í riðli með Hollandi, Tyrklandi, Svartfjallalandi, Lettlandi og Gíbraltar í undankeppni HM sem hefst 24. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert