Schalke búið að reka fjórða þjálfarann á tímabilinu

Christian Gross hefur verið látinn taka pokann sinn.
Christian Gross hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP

Svisslendingnum Christian Gross hefur verið sagt upp störfum sem þjálfari Schalke, sem situr sem fastast á botni þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu. Gross er fjórði þjálfarinn sem er látinn taka pokann sinn á tímabilinu.

David Wagner byrjaði tímabilið með liðið en var látinn taka poka sinn í september. Manuel Baum tók við af honum en var sjálfur rekinn í desember. Þá tók Huub Stevens við liðinu til bráðabirgða og Gross tók svo við.

Ekki hefur verið tilkynnt um hver muni koma til með að taka við af Gross og verða þar með fimmti þjálfari liðsins á tímabilinu. Liðið hefur aðeins unnið einn leik af 23 í deildinni á tímabilinu.

Schalke tapaði í gær 1:5 gegn Stuttgart í deildinni og helgina áður 0:4 gegn nágrönnum sínum í Borussia Dortmund. Þótti forsvarsmönnum liðsins því nóg komið og sögðu Gross upp störfum.

Átti allsherjarhreinsun sér stað í starfsliðinu þar sem Jochen Schneider, Sascha Riether, Rainer Widmayer og Werner Leuthard, samstarfsmenn Gross, voru sömuleiðis látnir taka pokann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert