Einn sá eftirsóttasti á óskalista Bayern?

Kalidou Koulibaly er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu.
Kalidou Koulibaly er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu. AFP

Senegalski knattspyrnumaðurinn Kalidou Koulibaly er á óskalista Evrópumeistara Bayern München.

Það er Tuttomercato sem greinir frá þessu en Koulibaly, sem er 29 ára gamall, hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu undanfarin ár.

Koulibaly er samningsbundinn Napoli á Ítalíu en samningur hans rennur út sumarið 2023.

Hann er verðmetinn á 55 milljónir punda en Napoli vildi fá í kringum 100 milljónir punda fyrir leikmanninn síðasta sumar.

Tuttomercato greinir frá því að Bæjarar séu tilbúnir að borga í kringum 40 milljónir punda fyrir miðvörðinn og forráðamenn ítalska liðsins hugsi nú málið.

Þá hefur Koulibaly einnig verið sterklega orðaður við Englandsmeistara Liverpool en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er mikill aðdáandi leikmannsins.

mbl.is