Handtökur í Barcelona

Josep Maria Bartomeu er á meðal þeirra sem hefur verið …
Josep Maria Bartomeu er á meðal þeirra sem hefur verið handtekinn. AFP

Oscar Grau, forseti spænska íþróttafélagsins Barcelona, hefur verið handtekinn í lögreguaðgerðum sem nú standa yfir á Spáni.

Það er katalónski miðillinn Nacio Digital sem greinir frá þessu og þá hefur Josep Maria Bartomeu, fyrrverandi forseti félagsins, einnig verið handtekinn.

Román Gómez Pontí, yfirmaður lögfræðiteymis Barcelona, hefur einnig verið handtekinn en handtökurnar eru liður í rannsókn lögreglunnar sem snýr meðal annars að spillingu og peningaþvætti innan félagsins.

Þá greina spænskir fjölmiðlar einnig frá því að handtökurnar snúi einnig að „Barcagate“-málinu svokallaða þar sem Bartomeu reyndi að koma óorði á núverandi og fyrrverandi leikmenn félagsins sem gagnrýndu hann fyrir stjórnarhætti hans á meðan hann var forseti.

Bartomeu á meðal annars að hafa búið til falska prófíla á samfélagsmiðlum til að grafa undan leikmönnum liðsins en Bartomeu lét af embætti á síðasta ári eftir mikið fjaðrafok í kringum félagið.

Barcelona er skuldum vafið þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins og gæti félagið þurft að lýsa sig gjaldþrota ef því tekst ekki að selja leikmenn og lækka launakostnað á næstu mánuðum.

mbl.is