Þeir bestu gætu orðið liðsfélagar í Bandaríkjunum

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru af mörgum taldir bestu …
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru af mörgum taldir bestu knattspyrnumenn sögunnar. AFP

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, bestu knattspyrnumenn heims undanfarinn áratug, gætu orðið liðsfélagar í Bandaríkjunum á næstu árum.

Það er breski miðillinn Mirror sem greinir frá þessu en David Beckham, eigandi bandaríska knattpyrnufélagsins Inter Miami, ætlar sér að koma liðinu í fremstu röð á næstu árum og hefur mikinn áhuga á að sameina krafta þeirra í Miami.

Félagið var stofnað árið 2018 og tók þátt í bandarísku MLS-deildinni í fyrsta sinn á síðustu leiktíð þar sem liðið hafnaði í nítjánda sæti deildarinnar.

Ronaldo hefur sjálfur gefið það út að hann hafi áhuga á því að ljúka ferlinum í Bandaríkjunum þegar þar að kemur en hann er orðinn 36 ára gamall og er samningsbundinn Juventus á Ítalíu.

Messi er 33 ára gamall og gæti komið við á Englandi áður en hann heldur yfir til Bandaríkjanna.

Frá árinu 2008 hefur Messi sex sinnum hreppt Gullknöttinn fræga, verðlaun sem eru veitt besta knattspyrnumanni heims, en Ronaldo hefur hreppt verðlaunin fimm sinnum.

Þeir tveir eru í algjörum sérflokki en næstu menn á eftir þeim eru þeir Michel Platini, Johan Cruyff og Marco van Basten sem hrepptu verðlaunin í þrígang hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert