Keflvíkingurinn á förum frá Danmörku?

Ísak Óli Ólafsson gæti fært sig um set.
Ísak Óli Ólafsson gæti fært sig um set. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Ísak Óli Ólafsson, sem leikur með SönderjyskE í Danmörku, gæti fært sig um set á næstunni. 

Ísak, sem er tvítugur, hefur ekki náð að festa sig í sessi í byrjunarliði SönderjyskE og Guðlaugur Tómasson, umboðsmaður Ísaks, viðurkennir við Fótbolta.net að hann gæti leitað annað.

„Við erum að skoða hans næstu skref. Bæði lán og sala koma til greina. Það eru búnar að vera fyrirspurnir frá efstu deildum Noregs og Svíþjóðar og svo MLS-deildinni í Bandaríkjunum og á Íslandi,“ sagði Guðlaugur við netmiðilinn.

Ísak hefur leikið samtals 104 mínútur með SönderjyskE í dönsku deildinni síðan hann kom til félagsins frá Keflavík árið 2019. Þá lék hann einn bikarleik frá upphafi til enda. 

mbl.is