Barcelona í úrslit eftir ótrúlega dramatík

Martin Braithwaite fagnar sigurmarki sínu gegn Sevilla.
Martin Braithwaite fagnar sigurmarki sínu gegn Sevilla. AFP

Barcelona leikur til úrslita í spænsku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir ótrúlegan sigur gegn Sevilla í síðari leik liðanna á Nývangi í Barcelona í kvöld.

Ousmane Dembélé kom Barcelona yfir strax á 12. mínútu en Sevilla-menn fengu tækifæri til þess að jafna á 73. mínútu þegar liðið fékk vítaspyrnu. Lucas Ocampos brenndi af spyrnunni og staðan því áfram 1:0. 

Fyrri leik liðanna í Sevilla lauk með 2:0-sigri Sevilla og því þurftu Börsungar á marki að halda til þess að knýja fram framlengingu. 

Það var svo Gerard Pique sem jafnaði metin fyrir Barcelona í uppbótartíma og tryggði sínu liði framlenginguna.

Þar skoraði Daninn Martin Braithwaite sigurmarkið og skaut Barcelona áfram í úrslit bikarkeppninnar.

Barcelona mætir annaðhvort Athletic Bilbao eða Levante í úrslitum 4. apríl en liðin mætast á morgun í síðari leik sínum. Fyrri leik liðanna lauk með 1:1-jafntefli.

mbl.is