Miður sín yfir handtökunum

Josep Maria Bartomeu og Ronald Koeman.
Josep Maria Bartomeu og Ronald Koeman. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona, segist vera miður sín yfir handtökum á núverandi og fyrrverandi forseta félagsins ásamt yfirmanni lögfræðiteymis þess.

Oscar Grau, forseti Barcelona, Josep María Bartomeu, fyrrverandi forseti félagsins, og Román Gómez Pontí, yfirmaður lögfræðiteymisins, voru allir handteknir á mánudaginn sem hluti af stórum lögregluaðgerðum.

Handtökurnar eru liður í rann­sókn lög­regl­unn­ar sem snýr meðal ann­ars að spill­ingu og peningaþvætti inn­an fé­lags­ins. „Þetta er ekki gott fyrir ásýnd félagsins,“ sagði Koeman um handtökurnar á blaðamannafundi í gærkvöldi.

„Þegar mér bárust fréttirnar til eyrna var ég miður mín því ég þekki Bartomeu og Grau vel. Ég kenni í brjósti um þá, ég hef átt góðar stundir með þeim á stuttum tíma og Bartomeu hefur alltaf verið stórkostlegur við mig,“ bætti hann við.

Barcelona á leik í kvöld í undanúrslitum spænska bikarsins, síðari leikinn gegn Sevilla, en sá fyrri endaði með 0:2-tapi Barcelona. Koeman sagði þörf á því að leikmenn einbeittu sér alfarið að leiknum í kvöld.

„Við þurfum að bíða og sjá hvað gerist með rannsóknina. Ég var ekki á svæðinu þegar handtökurnar áttu sér stað þannig að ég get ekki talað um þær. Við þurfum einungis að einbeita okkur að vinnunni okkar og snúa taflinu við í viðureigninni,“ sagði hann að lokum.

mbl.is