Sá eini sem getur stoppað Messi

Joan Laporta var forseti Barcelona frá 2003 til 2010.
Joan Laporta var forseti Barcelona frá 2003 til 2010. AFP

Joan Laporta, einn af forsetaframbjóðendum íþróttafélagsins Barcelona, er sannfærður um að Lionel Messi muni yfirgefa félagið ef hann nær ekki kjöri.

Messi, sem er 33 ára gamall og uppalinn hjá félaginu, hefur verið besti knattspyrnumaður heims undanfarinn áratug.

Sóknarmaðurinn er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa herbúðir Barcelona frítt í sumar, en hann var sterklega orðaður við brottför frá Börsungum allt síðasta sumar.

„Samband mitt og Messis er frábært og hann mun alltaf hlusta á það sem ég hef að segja,“ sagði Laporta í samtali við útvarpsstöðina RAC1 en Laporta var forseti Barcelona frá 2003 til ársins 2010.

„Ég er sannfærður um að Messi muni yfirgefa félagið ef ég næ ekki kjöri. Hann mun setjast niður með mér og ræða við mig um nýjan samning.

Ég er ekki viss um að hann muni gera það ef einhver annar verður kjörinn forseti,“ bætti Laporta kokhraustur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert