Sæta gagnrýni fyrir niðrandi skilaboð

Vegard Forren í viðtalinu þar sem sést í stuttermabolinn á …
Vegard Forren í viðtalinu þar sem sést í stuttermabolinn á veggnum. Skjáskot/TV2

Norska knattspyrnufélagið Brann hefur fengið yfir sig holskeflu gagnrýni eftir að það sást í stuttermabol hangandi uppi á vegg á skrifstofu félagsins sem innihélt niðrandi skilaboð í garð kvenna.

Vegard Forren, varnarmaður Brann, var í viðtali við morgunþáttinn God morgen Norge í gegnum Teams-forritið og notaði til þess skrifstofu Dan Riisnes, markmannsþjálfara liðsins. Fyrir aftan Forren sást í stuttermabol sem hékk á veggnum þar sem stóðu eftirfarandi skilaboð:

„Kvennafótbolti, hvað er nú það? Það er ekki fótbolti og það eru ekki konur sem spila hann.“

Vibeke Johannesen, framkvæmdastjóri Brann, segir skilaboðin á stuttermabolnum ekki endurspegla sýn eða viðhorf félagsins. Búið sé að taka stuttermabolinn niður. „Ég tel að allir átti sig á því. Þessi skrifstofa er lítið notuð,“ sagði hún í samtali við TV2, sem greindi fyrst frá.

„Það getur verið gott að draga lærdóm af þessu á þessum tímum, að þú verðir að hugsa þig um þegar þú velur staðsetningar. Það er auðvitað mjög óheppilegt að þetta hafi gerst,“ bætti hún við.

Aðspurð af hverju stuttermabolurinn hafi verið hengdur upp sagði Johannesen: „Ég get ekki svarað því. Þetta er gjöf frá því fyrir 15 árum, en enginn veit nákvæmlega hvaðan. Bolurinn hefði aldrei átt að hanga þarna. Þetta er mjög lélegur brandari.“

Johannesen sagði einnig að hún teldi ekki að þörf væri á að refsa einstaklingum, þ.e. markmannsþjálfaranum Riisnes. „Þetta mun ekki hafa afleiðingar fyrir aðilann sem hengdi stuttermabolinn upp. Ég held að hann sjái að þetta hafi verið mjög óheppilegt og ekki eitthvað sem við sem félag stöndum fyrir. Þetta er gamall stuttermabolur.“

„Hélt að við værum komin lengra“

Ingrid Ryland, norsk landsliðskona og leikmaður kvennaliðs Sandviken í norsku úrvalsdeildinni, er ein þeirra sem gagnrýna skilaboðin á stuttermabolnum.

„Þetta átti líklega að vera einhver sakleysislegur brandari en þetta er það ekki. Það er enginn húmor í þessu. Þó að þetta eigi að vera brandari getur hann ekki hangið á vegg eins stærsta félags Noregs.

Það er kominn tími á raunveruleikatékk. Ég hélt að við værum komin lengra,“ sagði Ryland í samtali við TV2.

Hún sagði atvikið ámælisvert fyrir Brann og setti í samhengi við stöðu kynjajafnréttis. „Þetta segir svolítið um viðhorfin sem eru enn grasserandi. Það er ekki verið að taka kynjajafnrétti nægilega alvarlega. Það að Brann sé síðan ekki með kvennalið hjálpar heldur ekki málflutningi þeirra.“

mbl.is