Aðeins fjórum stigum frá fyrsta titlinum í áratug

Steven Gerrard stefnir hraðbyri í átt að sínum fyrsta meistaratitli …
Steven Gerrard stefnir hraðbyri í átt að sínum fyrsta meistaratitli sem knattspyrnustjóri. AFP

Knattspyrnuliðið Rangers vantar nú aðeins fjögur stig úr síðustu sjö leikjum sínum í skosku úrvalsdeildinni til þess að tryggja sér sinn fyrsta meistaratitil í 10 ár.

Grannarnir og erkifjendurnir í Celtic hafa unnið deildina síðastliðin níu ár en nú fær ekkert stöðvað Rangers, sem eru 18 stigum á undan Celtic að 31 umferð lokinni.

Rangers og Celtic eru langsigursælustu lið Skotlands, þar sem Rangers hefur unnið deildina 54 sinnum og Celtic 51 sinni.

Leið Rangers að meistaratitlinum í ár hefur verið löng og erfið. Liðið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2012 og dæmt niður í fjórðu efstu deild, D-deildina.

Rangers lét það þó ekki á sig fá og komst upp um þrjár deildir á fjórum árum og var komið upp í úrvalsdeildina að nýju árið 2016. Fyrstu tvö árin á meðal þeirra bestu lenti liðið í þriðja sæti deildarinnar en næstu tvö ár, eftir að Steven Gerrard tók við árið 2018, lenti það í öðru sæti.

Á þessu tímabili hefur Rangers svo átt ótrúlegt tímabil. Eftir 31 leik hefur liðið unnið 27 þeirra, gert fjögur jafntefli og ekki tapað einum einasta leik.

Varnarleikur Rangers hefur verið einstæður þar sem liðið hefur einungis fengið á sig níu mörk. Þá hefur liðið skorað mest í deildinni, 74 mörk.

Ekkert virðist því geta komið í veg fyrir fyrsta meistaratitil Rangers í áratug og getur liðið raunar tryggt sér titilinn strax um helgina ef það vinnur sinn leik gegn St. Mirren á laugardaginn og Celtic misstígur sig daginn eftir gegn Dundee United.

Rangers er þar að auki komið í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar, þar sem liðið mætir Slavía Prag í tveimur leikjum í mánuðinum.

mbl.is