Leikin mynd um Baggio sýnd í sumar

Roberto Baggio í leik með Brescia undir lok ferilsins.
Roberto Baggio í leik með Brescia undir lok ferilsins. mbl.is

Streymisveitan Netflix hefur tilkynnt um frumsýningu á leiknu kvikmyndinni Baggio: The Divine Ponytail. Kemur hún fyrir sjónir áskrifenda veitunnar 26. maí.

Eins og titillinn gefur til kynna mun hún fjalla um ítölsku knattspyrnugoðsögnina Roberto Baggio, sem fékk viðurnefnið „hið guðdómlega tagl“ þar sem hann skartaði stærstan hluta ferils síns forláta tagli.

Hinn afar hæfileikaríki sóknarmaður spilaði fyrir stærstu félög Ítalíu; Juventus AC Milan og Inter Milan og sigraði meðal annars í ítölsku A-deildinni í tvígang, einu sinni með Juventus og einu sinni með AC Milan.

Þá lenti hann í þriðja sæti með ítalska landsliðinu á heimsmeistaramótinu á Ítalíu árið 1990 og lenti í öðru sæti á HM 1994 í Bandaríkjunum, þar sem hann klúðraði vítaspyrnu sinni í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum gegn sigurvegurum Brasilíu.

Baggio: The Divine Ponytail er ítölsk kvikmynd með ítölsku tali þar sem farið verður yfir 22 ára feril Roberto Baggio, þar á meðal erfiðleikana sem hann lenti í þegar hann spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum og hvernig hann lenti gjarna upp á kant við suma þjálfara sína.

Stutt stikla úr myndinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert