Hvenær er hendi hendi og hvenær er hendi ekki hendi?

Josh Maja skorar mark sem var dæmt af í gærkvöldi, …
Josh Maja skorar mark sem var dæmt af í gærkvöldi, en mætti dæma gilt í dag. AFP

Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda (IFAB) fann sig á ársfundi sínum í dag knúna til þess að gera breytingar og gefa betri skýringar á því hvað telst vera hendi. Þar kom til að mynda fram að ekki ætti að telja hverja einustu snertingu leikmanns á boltanum með hendi eða handlegg sínum sem leikbrot.

„Þar sem ekki hefur alltaf verið samræmi í túlkunum á atvikum þar sem um hendi er að ræða, vegna rangrar beitingar laganna, staðfestu meðlimir nefndarinnar að ekki væri hægt að telja hverja einustu snertingu leikmanns á boltanum með hendi eða handlegg sínum sem leikbrot.

Hvað það varðar að leikmaður geri líkama sinn „stærri á óeðlilegan hátt“ með hendi eða handlegg sínum var staðfest að dómarar ættu áfram að notast við dómgreind sína þegar kemur að því að ákvarða hversu mikið gildi staðsetning handar eða handleggs hefur í tengslum við hreyfingu leikmanns í hverju tilviki,“ segir í tilkynningu frá nefndinni.

Það beri því að dæma hendi þegar leikmaður:

  • snertir boltann viljandi með hendinni eða handleggnum, t.d. með því að hreyfa höndina eða handlegginn í átt að boltanum,
  • snertir boltann með hendinni eða handleggnum þegar höndin eða handleggurinn hefur stækkað líkamann á óeðlilegan hátt. Leikmaður er talinn hafa stækkað líkama sinn á óeðlilegan hátt þegar staðsetning handar eða handleggs hans er ekki afleiðing af, eða réttlætanleg, í tengslum við hreyfingu líkamans í tilteknum aðstæðum. Með því að vera með líkama sinn í slíkri stöðu hættir leikmaðurinn á að fá boltann í höndina eða handlegginn og vera refsað fyrir; eða
  • skorar í mark andstæðinganna:
    • beint með hendinni eða handleggnum, jafnvel þótt það sé fyrir slysni, þar á meðal í kjölfar snertingar markmanns andstæðingsins; eða
    • strax eftir að boltinn hefur snert hönd eða handlegg leikmanns, jafnvel þótt það sé fyrir slysni.

Helsta breytingin sem þetta felur í sér er sú að hendi fyrir slysni sem leiðir til þess að samherji skorar mark eða fær marktækifæri verður ekki lengur talin leikbrot.

Við sama tilefni gerði nefndin það ljóst að handleggurinn endar neðst við handarkrika. Þetta skuli dómarar nota til hliðsjónar þegar dæma á hvort leikmaður sé rangstæður.

Dæmt af í gær en mætti dæma gilt í dag

Tímasetning ákvörðunar Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda vekur nokkra athygli, þar sem Fulham skoraði jöfnunarmark gegn Tottenham Hotspur í gærkvöldi sem var dæmt af vegna þess að það var hendi í aðdraganda marksins.

Þá skaut Davinson Sánchez, varnarmaður Tottenham, boltanum í hönd Marios Lemina, miðjumanns Fulham, sem var með höndina upp við líkama sinn og gat sig hvergi hrært. Í kjölfarið barst boltinn til Josh Maja, sem skoraði, en VAR dæmdi markið af vegna þess að það var hendi á Lemina í aðdragandanum.

Það verður að teljast ansi svekkjandi fyrir Fulham-menn, en samkvæmt þessum breytingum mætti dæma mark eins og það sem Maja skoraði í gærkvöldi, sem má sjá hér, gilt í dag.

Breytingarnar taka formlega gildi hinn 1. júlí næstkomandi en deildir og aðrar keppnir hafa svigrúm til þess að kynna þær til leiks fyrir þann tíma. Þar sem breytingarnar voru kynntar í dag er ekki enn ljóst hvort einhverjar deildir komi til með að taka upp breytingarnar strax eða bíði með það þar til á næsta tímabili.

Reglurnar fyrir þessar breytingar kváðu á um að allar snertingar sóknarmanns á boltanum með hendi eða handlegg, jafnvel fyrir slysni eins og í tilfelli Lemina, í aðdraganda marks, skyldi dæma sem leikbrot.

mbl.is