Sánchez með tvennu þegar Inter jók forskotið

Alexis Sánchez fagnar seinna marki sínu í leiknum í gærkvöldi.
Alexis Sánchez fagnar seinna marki sínu í leiknum í gærkvöldi. AFP

Alexis Sánchez skoraði bæði mörk Inter Mílanó þegar liðið vann 2:1 útisigur gegn Parma í ítölsku A-deildinni í gærkvöldi. Með sigrinum jók Inter forskot sitt í sex stig á toppi deildarinnar.

Sánchez hefur að mestu mátt þola bekkjarsetu á tímabilinu þar sem Romelu Lukaku og Lautaro Martínez hafa eignað sér framherjastöðurnar tvær, enda búnir að vera afar drjúgir í markaskorun.

Eftir að grannarnir og erkifjendurnir í AC Milan misstigu sig um helgina með því að gera 1:1 jafntefli gegn Udinese gat Inter aukið forskot sitt í sex stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik minnti Sánchez á sig í þeim síðari þegar hann skoraði á 54. og 62. mínútu og kom Inter þar með í 2:0 forystu. Parma minnkaði svo muninn með marki frá Hernani á 71. mínútu en þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert