Zlatan snýr aftur

Zlatan Ibrahimovic snýr aftur í sænska landsliðið í mars.
Zlatan Ibrahimovic snýr aftur í sænska landsliðið í mars. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic verður í landsliðshópi Svíþjóðar sem mætir Georgíu og Kosóvó í undankeppni HM í Katar síðar í mánuðinum. Netmiðillinn Footballdirekt greinir frá.

Hvorki leikmaðurinn né landsliðsþjálfarinn Janne Andersson hafa staðfest háværan orðróm þess efnis að Zlatan væri væntanlegur í sænska landsliðið á ný, en sóknarmaðurinn er 39 ára gamall.

Ibrahimovic leikur í dag með AC Milan á Ítalíu en hann hefur leikið 116 leiki fyrir Svíþjóð og skorað í þeim 62 mörk. Hefur hann verið iðinn við kolann á tímabilinu og skorað 14 mörk í 14 byrjunarliðsleikjum með AC Milan í ítölsku A-deildinni.

Síðustu leikir framherjans með landsliðinu voru á lokamóti EM í Frakklandi 2016, en hann lék þrjá leiki á mótinu án þess að skora. Hann skoraði hins vegar ellefu mörk í tíu leikjum í undankeppninni.

mbl.is