Ekki með gegn Barcelona

Neymar verður í stúkunni þegar PSG tekur á móti Barcelona …
Neymar verður í stúkunni þegar PSG tekur á móti Barcelona á morgun. AFP

Neymar, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, verður ekki leikfær þegar liðið tekur á móti Barcelona í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París á morgun.

Þetta staðfesti Mauricio Pochettino, stjóri PSG, á blaðamannafundi franska félagsins í dag en fyrri leik liðanna leik með 4:1-sigri PSG í Barcelona.

Neymar var ekki heldur með í leiknum á Spáni en hann hefur verið að glíma við ökklameiðsli síðan um miðjan febrúar þegar hann meiddist gegn Caen í frönsku bikarkeppninni.

Sóknarmaðurinn sneri aftur til æfinga í gær en verður ekki orðinn leikfær fyrir leikinn mikilvæga.

Neymar, sem er 29 ára gamall, gekk til liðs við PSG í Frakklandi frá Barcelona árið 2017 fyrir metfé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert