Hættir eftir EM – Klopp orðaður við starfið

Joachim Löw lætur af störfum eftir EM 2022 eftir sextán …
Joachim Löw lætur af störfum eftir EM 2022 eftir sextán ár í starfi. AFP

Joachim Löw lætur af störfum sem þjálfari þýska landsliðsins í knattspyrnu eftir lokakeppni EM 2021 í sumar.

Þetta staðfesti þýska knattspyrnusambandið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Löw hefur stýrt Þjóðverjum frá árinu 2006 þegar hann tók við liðinu af Jürgen Klinsmann en Löw var aðstoðarþjálfari Klinsmanns frá 2004 til 2006.

Hann gerði Þjóðverja að heimsmeisturum árið 2014 á HM í Brasilíu þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Argentínu í framlengdum úrslitaleik í Ríó.

Þá hafnaði liðið í þriðja sæti á HM 2010 í Suður-Afríku en liðið vann 3:2-sigur gegn Úrúgvæ í Port Elizabeth. Þá höfnuðu Þjóðverjar í öðru sæti á EM 2008 eftir tap gegn Spánverjum í úrslitaleik í Vín.

Ísland leikur með Þýskalandi í riðli í undankeppni HM 2022 en liðin mætast í Duisburg 25. mars þar sem Löw verður við stjórnvölinn. Hann mun hins vegar ekki stýra þýska liðinu þegar það mætir á Laugardalsvöll hinn 8. september.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur verið sterklega orðaður sem næsti eftirmaður Löws hjá þýska landsliðinu en samningur Klopps í Bítlaborginni rennur út sumarið 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert