Lést aðeins 32 ára að aldri

Lee Collins var aðeins 32 ára þegar hann lést í …
Lee Collins var aðeins 32 ára þegar hann lést í gær. Ljósmynd/YTFC

Fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Yeovil Town, Lee Collins, er látinn, aðeins 32 ára að aldri. Leik liðsins gegn Altrincham í ensku E-deildinni sem átti að fara fram á morgun hefur verið frestað vegna þessara sorglegu tíðinda.

Forsvarsmenn Yeovil hafa ekki gefið upp dánarorsök Collins en gáfu út eftirfarandi yfirlýsingu:

„Allir hjá Yeovil Town syrgja missi fyrirliðans Lee Collins. Það hryggir okkur að staðfesta að Lee lést í gær og eru fjölskylda og vinir hans í hugsunum okkar og bænum. Á þessari stundu viljum við biðja alla um að veita fjölskyldu hans næði.“

Collins, sem lék sem varnarmaður, ólst upp hjá Wolverhampton Wanderers og lék einnig fyrir Port Vale, Barnsley, Northampton Town, Mansfield Town og Forest Green Rovers áður en hann gekk til liðs við Yeovil árið 2019.

mbl.is