Getum komið á óvart og slegið United út

Domingos Quina í öðrum leiknum gegn Napoli í 32-liða úrslitum …
Domingos Quina í öðrum leiknum gegn Napoli í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. AFP

Domingos Quina, leikmaður spænska knattspyrnuliðsins Granada, segir liðið fullfært um að koma á óvart og slá Manchester United út úr Evrópudeildinni.

Liðin mætast í Granada í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Granada sló Napoli út í 32-liða úrslitum og svo Molde í 16-liða úrslitunum.

Quina, sem leikur sem lánsmaður hjá Granada frá Watford, áttar sig á því að enska stórliðið er sigurstranglegra en hefur þó fulla trú á liði sínu.

„Auðvitað. Þetta er fótbolti, maður veit aldrei. Gegn Napoli [í 32-liða úrslitum] voru þeir taldir sigurstranglegri en við náðum að klára það verkefni. Við þurfum bara að halda áfram að trúa og dreyma og allt er mögulegt,“ sagði Quina í samtali við Daily Mail.

Hann sagði þjálfara liðsins, Diego Martínez, eiga stóran hlut að máli þegar kæmi að trú liðsins. „Við gætum sannarlega komið fólki á óvart, við munum berjast allt til enda. Við erum ástríðufullt lið, okkur dreymir stórt og höfum stór markmið. Þjálfarinn lætur okkur líða eins og allt sé mögulegt.“

mbl.is