Rauf einangrun og keyrði á hjólreiðamann

Luiz Adriano hljóp á sig í vikunni.
Luiz Adriano hljóp á sig í vikunni. AFP

Knattspyrnumaðurinn Luiz Adriano kom sér í talsverð vandræði í vikunni. Eftir að hafa greinst með kórónuveiruna rauf hann einangrun og keyrði í leiðinni á hjólreiðamann.

Adriano, sem leikur nú með Palmeiras í heimalandi sínu Brasilíu og var áður á mála hjá Shakhtar Donetsk og AC Milan, greindist með veiruna á mánudag og var í kjölfarið fyrirskipað að vera í einangrun í 10 daga þrátt fyrir að vera einkennalaus.

„Mér var fyrirskipað að vera í einangruðu húsi en í gær fór ég með móður mína í stórmarkað í verslunarmiðstöð þar sem hún kann ekki að keyra. Ég yfirgaf ekki bíl minn og var með grímu allan tímann,“ skrifaði Adriano á Instagram-aðgangi sínum.

Hjólreiðamaðurinn var með blóðgað andlit eftir áreksturinn og þurfti á aðhlynningu að halda. Adriano virtist þó kenna hjólreiðamanninum um áreksturinn: „Ég endaði á því að lenda í slysi þar sem hjól ók á bílinn minn við útgang bílastæðisins í verslunarmiðstöðinni. Ég var með grímuna á mér allan tímann en ég gat ekki sleppt því að hjálpa manninum sem lenti í slysinu. Allir hafa það gott.“

Adriano viðurkenndi að lokum mistök sín í tengslum við að rjúfa einangrun. „Já ég hefði ekki átt að yfirgefa húsið, ég gerði mistök, ég viðurkenni það! Við lifum á erfiðum tímum. Við þurfum öll að vera varkár og virða sóttvarna- og öryggisreglur. Við getum alltaf hjálpað til á einhvern hátt en aðallega þurfum við að gangast við og læra af mistökum okkar.“

Adriano hefur verið sektaður fyrir að rjúfa einangrun.

mbl.is