Umdeild áritun en góður hugur að baki

Erling Braut Haaland og rúmenskur dómari leiksins á hnjánum fyrir …
Erling Braut Haaland og rúmenskur dómari leiksins á hnjánum fyrir leik Manchester City og Dortmund í gærkvöld. AFP

Rúmenski knattspyrnudómarinn Octavian Sovre hefur verið gagnrýndur víða fyrir að fá eiginhandaráritun hjá norska framherjanum Erling Haaland eftir leik Manchester City og Dortmund í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

Sovre var aðstoðardómari leiksins og fór til Norðmannsins að leik loknum og fékk hann til að árita gul og rauð spjöld sem hann hafði í fórum sínum.

Nú hefur Simona Zlibut, forsvarskona þjónustumiðstöðvar fyrir einhverfa í borginni Oradea í vesturhluta Rúmeníu, upplýst að Sovre hafi gert þetta til að aðstoða samtökin við fjáröflun. Spjöldin verði væntanlega boðin upp síðar í þessum mánuði og ágóðinn renni til styrktar miðstöðinni sem sé nær eingöngu fjármögnuð af foreldrum.

Zlibut skýrði frá því að greiðslur frá rúmenska ríkinu til miðstöðvarinnar næmu um 500 lei, um 15 þúsund íslenskum krónum, á mánuði. Framlög eins og frá hennar gamla leikskólabróður, Octavians Sovre, væru miðstöðinni því ákaflega dýrmæt.

Zlibut, sem sjálf á 21 árs gamla dóttur í miðstöðinni, sagði að rúmenskar knattspyrnuhetjur á borð við Gheorghe Hagi og Helmuth Duckadam hefðu rétt hjálparhönd á undanförnum árum.

mbl.is