Dramatískt mark sem gæti komið Íslandi illa

Ana Maria Crnogorcevic með boltann í leik gegn Íslandi. Hún …
Ana Maria Crnogorcevic með boltann í leik gegn Íslandi. Hún jafnaði í uppbótartímanum í Tékklandi í dag. mbl.is/Golli

Tékkland og Sviss skildu jöfn, 1:1, í fyrri umspilsleik sínum um sæti í lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu sumarið 2022 en jöfnunarmark Svisslendinga í uppbótartíma gæti komið íslenska landsliðinu illa.

Leikið var í Chomutov í Tékklandi og Katerina Svitková kom Tékkum yfir með marki úr vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks. Allt stefndi í mikilvægan heimasigur en í uppbótartímanum fékk Sviss vítaspyrnu og úr henni jafnaði Ana Maria Crnogorcevic.

Liðin mætast aftur í Sviss á þriðjudaginn og þá ræðst hvort liðanna kemst á EM. Það kemur til með að skipta máli fyrir Ísland. Ef Tékkar vinna einvígið og EM-farseðlana verður Ísland í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina en ef Sviss vinnur og fer á EM þá kemst Sviss í þriðja flokkinn og Ísland fer í fjórða og neðsta styrkleikaflokkinn.

Þrjú einvígi fara fram í umspilinu en í því taka þátt sex af þeim liðum sem enduðu í öðru sæti í sínum riðlum undankeppninnar. Ísland slapp við umspilið með því að vera með næstbesta árangurinn í öðru sæti. Fyrri viðureign Úkraínu og Norður-Írlands er nýhafin og í kvöld mætast Portúgal og Rússland.

mbl.is