Óvænt úrslit í umspilinu

Landsliðskonur Norður-Írlands fagna í Úkraínu í kvöld.
Landsliðskonur Norður-Írlands fagna í Úkraínu í kvöld. Ljósmynd/FFU

Norður-Írland vann óvæntan 2:1-útisigur gegn Úkraínu í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu 2022. Þrír leikir fóru fram í kvöld og lýkur umspilinu í næstu viku.

Norður-Írar eru að keppa í umspili um sæti á stórmóti í fyrsta sinn og þóttu ekki sigurstranglegir í kvöld. Rachel Furness, sem spilar með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, kom hins vegar gestunum í forystu strax á fimmtu mínútu. Daryna Apanaschenko jafnaði metin fyrir heimakonur en Simone Magill sá til þess að gestirnir taka forystu með sér heim fyrir síðari leikinn með sigurmarki á 57. mínútu.

Tékkland var nálægt því að vinna sigur á Sviss á heimavelli en Katerina Svitkova kom heimakonum í forystu með marki úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik. Svisslendingar fengu hins vegar eigin vítaspyrnu í blálokin og úr henni skoraði Ana-Maria Crnogorcevic.

Þá vann Rússland 1:0-útisigur geng Portúgal en sigurmarkið gerði Nelli Korvkina á 52. mínútu. Seinni leikir liðanna fara fram á þriðjudaginn en sigurliðin fara á EM 2022 á Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert