Landsliðsmarkvörður grískur meistari

Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson. Ljósmynd/@OlympiakosFr

Landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson og samherjar hans í Olympiacos tryggðu sér í kvöld gríska meistaratitilinn í fótbolta með 3:1-heimasigri á Panathinaikos, þrátt fyrir að sjö umferðir séu eftir af deildarkeppninni. 

Ögmundur var allan tímann á varamannabekk Olympiacos, en hann hefur enn ekki leikið deildarleik með liðinu síðan hann kom til þess fyrir þessa leiktíð. Einu þrír leikir Ögmundar fyrir Olympiacos hafa komið í bikarkeppninni. 

Olympiacos hefur verið með gríðarlega yfirburði á leiktíðinni og unnið 24 leiki af 29 og aðeins tapað einum. Fyrir vikið er liðið með 22 stiga forskot á Aris í öðru sæti. 

Meistaratitillinn er sá 46. í röðinni og sá 20. frá árinu 1997 hjá Olympiacos. Panathinaikos kemur næst á eftir með alls 20 meistaratitla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert