Landsliðshetja á batavegi á sjúkrahúsi

Daniele De Rossi fyrir leik ítalska liðsins 25. mars.
Daniele De Rossi fyrir leik ítalska liðsins 25. mars. AFP

Daniele de Rossi, landsliðsmaður Ítala í knattspyrnu og núverandi aðstoðarþjálfari ítalska karlalandsliðsins, liggur á sjúkrahúsi í Róm eftir að hafa fengið kórónuveiruna í síðustu viku.

Þegar ítalska landsliðið kom saman á dögunum og lék þrjá leiki í undankeppni HM smituðust átta leikmenn liðsins af kórónuveirunni og nokkrir úr starfsliðinu. Einn þeirra var de Rossi og hann veiktist það alvarlega að hann var fluttur á Spallanzani-sjúkrahúsið í Róm.

Yfirmaður sjúkrahússins segir að de Rossi sé nú á batavegi. Hann sé ungur, veikindin hafi verið meðhöndluð í tæka tíð og hann nái sér því fljótt.

De Rossi er 37 ára gamall og lék 117 landsleiki fyrir hönd Ítalíu. Hann er fjórði leikjahæsti leikmaður ítalska landsliðsins frá upphafi og var í hópnum þegar það varð heimsmeistari árið 2006. Eftir að hann lagði skóna á hilluna á síðasta ári tók hann við starfi aðstoðarþjálfara landsliðsins þar sem hann starfar við hlið Roberto Mancini landsliðsþjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert