Fimm lykilmenn fjarverandi gegn Liverpool

Sergio Ramos og Raphaël Varane verða ekki með gegn Liverpool.
Sergio Ramos og Raphaël Varane verða ekki með gegn Liverpool. AFP

Real Madrid verður án fimm lykilmanna þegar liðið heimsækir Liverpool í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Anfield í Liverpool á morgun.

Real Madrid er í vænlegri stöðu eftir fyrri leikinn sem lauk með 3:1-sigri Real Madrid en Liverpool þarf að vinna með að minnsta kosti tveimur mörkum og halda marki sínu hreinu til þess að komast áfram í undanúrslit keppninnar.

Sergio Ramos, fyrirliði liðsins, er áfram fjarri góðu gamni vegna meiðsla en hann greindist einnig með kórónuveiruna á dögunum.

Raphaël Varane er áfram fjarri góðu gamni eftir að hafa greinst með kórónuveiruna í síðustu viku og þá er Eden Hazard að glíma við meiðsli.

Lucas Vázquez er meiddur og sömu sögu er að segja um hægri bakvörðinn Dani Carvajal en Vázquez hefur leyst Carvajal af hólmi í undanförnum leikjum.

mbl.is