Gulldrengurinn okkar

Kylian Mbappé og Neymar eru góðir félagar utan vallar.
Kylian Mbappé og Neymar eru góðir félagar utan vallar. AFP

Neymar, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, hefur hrósað liðsfélaga sínum Kylian Mbappé í hástert.

Þeir verða báðir í eldlínunni með PSG í kvöld þegar liðið mætir Bayern München í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París en fyrri leik liðanna lauk með 3:2-sigri PSG.

Mbappé átti einmitt frábæran leik í Þýskalandi í fyrri leik liðanna og skorað tvö marka Parísarliðsins.

„Hann hjálpaði mér mikið að aðlagast lífinu í Frakklandi og ég á honum ansi mikið að þakka,“ sagði Neymar í samtali við France Football.

„Í fyrsta lagi þá er hann frábær manneskja. Það er alltaf stutt í brosið há honum, hann er góður við fólkið í kringum sig og fyrst og fremst frábær manneskja.

Það hafa svo verið forréttindi að æfa með honum enda frábær knattspyrnumaður sem er bæði snöggur, hugmyndaríkur og gáfaður. Hann er gulldrengurinn okkar!

Hraðinn skiptir engu máli ef þú kannt ekki að nota hann en Mbappé er á meðal þeirra bestu í heiminum í dag að rekja boltann,“ bætti Neymar við.

mbl.is