Guardiola stýrði City loks í undanúrslitin

Kyle Walker og Phil Foden fagna marki þess síðarnefnda í …
Kyle Walker og Phil Foden fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. AFP

Manchester City komst í fyrsta skipti í undanúrslit í Meistaradeild Evrópu undir stjórn spænska knattspyrnustjórans Pep Guardiola þegar liðið vann 2:1 sigur gegn Borussia Dortmund í átta liða úrslitunum í kvöld. Man City vann einvígið þar með 4:2 samanlagt.

Man City komst síðast í undanúrslit Meistaradeildarinnar vorið 2016, en Guardiola tók svo við stjórnartaumum liðsins skömmu síðar, sumarið 2016.

Dortmund byrjaði leikinn betur og uppskar mark eftir stundarfjórðung. Þar var að verki Englendingurinn ungi, Jude Bellingham, eftir að boltinn barst til hans utarlega í teignum og hann kláraði laglega upp í vinkilinn.

Eftir að hafa verið með undirtökin fyrri hluta fyrri hálfleiks vann Man City sig æ betur inn í leikinn. Á 25. mínútu vann Kevin De Bruyne boltann rétt fyrir utan vítateig Dortmund, þrumaði að marki, boltinn endaði í stönginni, barst út á Bernardo Silva sem náði skallanum en var í litlu jafnvægi og hann fór því fram hjá opnu markinu.

Eftir rúmlega hálftíma leik fékk Riyad Mahrez boltann í teignum eftir góðan undirbúning Phil Foden og virtist vera að jafna metin en Bellingham hreinsaði skot hans á línu og bjargaði í horn.

Dortmund var því með eins marks forystu í leikhléi og var á þeirri stundu áfram á útivallarmarki.

Í síðari hálfleik héldu leikmenn Man City áfram þar sem frá var horfið og uppskáru fljótlega mark. Eftir fyrirgjöf frá vinstri ætlaði Emre Can að skalla frá en slæmdi handleggnum í boltann og vítaspyrna því dæmd.

VAR skoðaði atvikið og ákvað að halda sig við upphaflega dóminn. Mahrez steig á vítapunktinn og skoraði. Marwin Hitz í marki Dortmund fór í rétt horn en skotið aðeins of ofarlega fyrir hann. Staðan því orðin 1:1.

Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum gerði Man City svo út um hann. Mahrez tók þá stutta hornspyrnu á Silva, hann kom boltanum á Phil Foden sem skoraði með laglegu skoti rétt fyrir utan teig, stöngin inn.

Staðan orðin 2:1 og það urðu lokatölur. Guardiola er því loks kominn með Man City-liðið sitt í undanúrslit Meistaradeildarinnar, þar sem liðið mun mæta París Saint-Germain.

Riyad Mahrez jafnar metin úr vítaspyrnu.
Riyad Mahrez jafnar metin úr vítaspyrnu. AFP
Erling Braut Haaland fagnar ásamt Jude Bellingham eftir að sá …
Erling Braut Haaland fagnar ásamt Jude Bellingham eftir að sá síðarnefndi kom Borussia Dortmund yfir. AFP
Dortmund 1:2 Man. City opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með samanlögðum 4:2 sigri Man City, sem er komið í undanúrslitin!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert