Krísufundur í Þýskalandi

Hans-Dieter Flick tók við þjálfun Bayern München haustið 2019 af …
Hans-Dieter Flick tók við þjálfun Bayern München haustið 2019 af Niko Kovac. AFP

Boðað hefur verið til krísufundar hjá íþróttafélaginu Bayern München þar sem framtíð knattspyrnustjórans Hans-Dieter Flick verður rædd.

Það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu en Bayern München, sem er ríkjandi Evrópumeistari, féll úr leik í Meistaradeild Evrópu í gær í átta liða úrslitum keppninnar.

Andrúmsloftið innan félagsins hefur ekki verið gott á tímabilinu en Flick er ósáttur við Hasan Salihamidzic, yfirmann íþróttamála, hjá Bæjurum.

Stjórinn er ósáttur með að félagið hafi selt Thiago til Liverpool síðasta sumar og þá er hann ekki sáttur með það hvernig staðið var að samningsmálum David Alaba og Jeromé Boateng en þeir munu báðir yfirgefa félagið í sumar þegar samningar þeirra renna út.

Þá er þýski stjórinn einnig ósáttur með þá leikmenn sem voru keyptir til Bayern síðasta sumar en Eric-Maxim Choupo-Moting er sá eini sem hefur náð að láta að sér kveða vegna meiðsla Robert Lewandowskis.

Flick hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá þýska landsliðinu en Joachim Löw, núverandi þjálfari Þjóðverja, mun láta af störfum eftir lokakeppni EM í sumar.

mbl.is