Markalaust á Anfield og Liverpool úr leik

Georginio Wijnaldum skýtur yfir úr dauðafæri í leiknum í kvöld.
Georginio Wijnaldum skýtur yfir úr dauðafæri í leiknum í kvöld. AFP

Liverpool og Real Madríd gerðu markalaust jafntefli þegar þau mættust öðru sinni í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Anfield í Liverpool í kvöld. Real Madríd vann fyrri leikinn 3:1 í Madríd og er því komið áfram í undanúrslitin.

Liverpool hóf leikinn af krafti og fékk Mohamed Salah dauðafæri strax í byrjun leiks. Á annarri mínútu gaf Ozan Kabak þá langa sendingu fram á Sadio Mané, sem gaf boltann í fyrsta þvert fyrir á Salah en skot hans var slappt og of nálægt Thibaut Courtois sem varði með löppunum.

Liverpool setti Real Madríd undir mikla pressu í kjölfarið og átti James Milner til að mynda mjög gott skot fyrir utan teig sem Courtois varði vel í horn.

Á 20. mínútu var Real Madríd svo nálægt því að taka forystuna. Karim Benzema reyndi þá að gefa fyrir, Kabak komst í veg fyrir sendinguna og boltinn small í stönginni.

Eftir það voru Madrídingar með góða stjórn á leiknum en undir lok fyrri hálfleiks hóf Liverpool að ógna á ný. Á 41. mínútu fékk Salah boltann í góðri stöðu frá Mané en skot Egyptans fór rétt yfir samskeytin.

Aðeins mínútu síðar átti Trent Alexander-Arnold góðan sprett upp hægri kantinn, gaf boltann út á Georginio Wijnaldum sem skaut yfir markið úr kjörstöðu.

Markalaust var því í hálfleik og Real Madríd í góðri stöðu með tveggja marka forystu frá fyrri leiknum,

Í síðari hálfleik byrjaði Liverpool sömuleiðis af krafti og fékk Robert Firmino mjög gott færi á fyrstu mínútu hálfleiksins eftir sendingu Trent Alexander-Arnold en Courtois var enn á ný vel á verði.

Um miðjan hálfleikinn var Vinícius Júnior að sleppa í gegn en Alisson gerði vel í að koma út á móti og varði skotið.

Skömmu síðar, á 68. mínútu, fékk Salah annað gott færi en að þessu sinni fór skot hans af Nach Fernández og aftur fyrir í horn.

Skömmu síðar gerðu Firmino og varamaðurinn Diogo Jota sig líklega en Éder Militao komst í veg fyrir skot Firmino og Courtois varði skot Jota í horn.

Á 81. mínútu var Benzema nálægt því að koma gestunum í Real Madríd yfir en frír skalli hans fyrir miðjum teignum fór í jörðina og yfir markið.

Þrátt fyrir fjörugan leik létu mörkin á sér standa og Madrídingar máttu vel við una. Lengra komst Liverpool enda ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Real Madríd mætir þar með Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool 0:0 Real Madrid opna loka
95. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með markalausu jafntefli og Real Madríd er komið í undanúrslitin.
mbl.is