Refsa þeim fyrir að halda fyrir munninn

Clarence Seedorf lék með mörgum stórliðum á sínum tíma.
Clarence Seedorf lék með mörgum stórliðum á sínum tíma. AFP

Clarence Seedorf, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, vill að knattspyrnumönnum verði refsað ef þeir halda fyrir munninn þegar þeir tala við andstæðinga eða dómara.

Kynþáttaníð hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og Seedorf telur að einföld regla þar sem leikmenn fái gult spjald fyrir ofangreinda framkomu geti hjálpað mikið til.

Ondrej Kudela, leikmaður Slavia Prag, hafnaði á dögunum ásökunum um að hafa beitt mótherja sinn, Glen Kamara hjá Rangers, kynþáttaníði í leik liðanna í Evrópudeildinni á dögunum. Hann fékk síðan eins leiks bann frá UEFA eftir að hafa viðurkennt vægari munnsöfnuð í garð leikmannsins en þar sem hann hélt fyrir munninn í atvikinu var ekki hægt að greina hvað hann sagði.

„Það er mikið talað um þetta en það vantar athafnir. Nú er afar áríðandi að bregðast strax við. Ég hef ítrekað séð leikmenn halda fyrir munninn þegar þeir tala saman innan vallar. Undanfarna mánuði hafa margir leikmenn verið sakaðir um kynþáttaníð. Það er hægt að ráðast gegn því með einföldum reglum.

Þegar íþróttafólk ræðist við á það að vera fyrir opnum tjöldum. Hvers vegna ætti það að halda fyrir munninn? Ef ég tala þannig við þjálfarann minn eða liðsfélaga, þá er það í fínu lagi, en sá sem ræðir við dómara eða mótherja á þann hátt, í hvaða íþrótt sem er, þá átt þú ekki að komast upp með það. Refsingu þarf að beita, t.d. gulu spjaldi. Ég vil sjá viðbrögð við þeirri baráttu sem fram fer innan UEFA og FIFA,“ sagði Seedorf við Sky Sports en hann vann fjórum sinnum í Meistaradeild Evrópu á sínum tíma, með Ajax, Real Madrid og AC Milan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert