Róm staðfest sem leikstaður á EM

Áhorfendur á landsleik á Stadio Olimpico árið 2019. Þeir geta …
Áhorfendur á landsleik á Stadio Olimpico árið 2019. Þeir geta ekki setið alveg svona þétt í sumar. AFP

Ítalska knattspyrnusambandið staðfesti við UEFA í dag að Róm væri tilbúin í slaginn fyrir úrslitakeppni Evrópumóts karla í sumar eftir að leyfi fékkst fyrir 25 prósenta nýtingu sæta fyrir áhorfendur.

Ítalska ríkisstjórnin hefur staðfest að í það minnsta 25 prósent sæta verði í boði en það þýðir að um 17.500 manns geta mætt á leikina sem þar fara fram. Stadio Olimpico rúmar 70 þúsund áhorfendur í sæti.

UEFA setti það sem skilyrði að borgirnar tólf víðs vegar um Evrópu sem hýsa Evrópukeppnina yrðu að hleypa áhorfendum á leikina og slík staðfesting hefur nú fengist frá þeim flestum.

Ítalir leika alla leiki sína í A-riðli keppninnar á Stadio Olimpico en þeir mæta Tyrkjum 11. júní, Svisslendingum 16. júní og Wales 20. júní.

Þá verður einn leikur í átta liða úrslitum háður á vellinum en Ítalir munu ekki leika þar ef þeir enda í öðru tveggja efstu sæta A-riðils. Komist þeir áfram sem lið í þriðja sæti gætu þeir leikið í Róm.

mbl.is