Töpuðum ekki rimmunni í kvöld

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði Liverpool ekki hafa tapað rimmunni gegn Real Madríd í Meistaradeild Evrópu í kvöld heldur hafi fyrri leikur liðanna ráðið úrslitum. 

„Maður þarf að standa sig á lykilaugnablikum. Við töpuðum ekki rimmunni í kvöld. Við töpuðum í Madríd. En þetta var ekki þægilegt fyrir Madríd vegna þess að við vorum góðir og ákafir. Við fengum færi,“ sagði Jürgen Klopp eftir 0:0 jafnteflið gegn Real Madríd í kvöld. Real Madríd vann fyrri leikinn 3:1 í Madríd og Liverpool hefði því þurft að skora mark í kvöld til að hleypa lífi í viðureignina. 

„Það er ekki áhugavert að velta fyrir sér ef og hefði. Við skoruðum ekki og fyrir vikið náðu reynir leikmenn Real Madríd að róa leikinn. Er þetta í takti við hvernig okkur hefur gengið að nýta marktækifærin á tímabilinu. Við vitum að Mo Salah getur oft nýtt sér tækifæri og skorað með augun lokuð ef því er að skipta. En þannig var það ekki í kvöld og við erum úr leik,“ sagði Klopp í samtali við BT Sport. 

mbl.is