Zlatan sektaður eða settur í langt bann?

Zlatan Ibrahimovic í leik gegn Parma um síðustu helgi.
Zlatan Ibrahimovic í leik gegn Parma um síðustu helgi. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic getur átt von á hárri sekt eða jafnvel banni frá FIFA og UEFA vegna eignarhalds hans í veðmálafyrirtæki.

Samkvæmt reglum FIFA og UEFA mega leikmenn ekki hafa fjárhagslegan ábata af rekstri veðmálfyrirtækja. Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá því að hlutabréfafyrirtækið Unknown AB, sem Zlatan á hlut í, eigi 10 prósenta hlut í veðmálafyrirtækinu Bethard.com. Framkvæmdastjóri Bethard.com, Erik Skarp, staðfestir þetta við blaðið.

Zlatan gæti samkvæmt blaðinu fengið 100 milljóna evra sekt eða jafnvel verið settur í allt  að þriggja ára bann frá afskiptum af knattspyrnu.

„Við höfum ekki rætt þetta við Zlatan. Ég er ekki að velta fyrir mér mögulegum refsingum, en það væri gott að fá betri útskýringar frá FIFA varðandi reglur um svona lagað því það er hægt að túlka þær á fleiri en einn veg,“ segir Hakan Sjöstrand, framkvæmdastjóri sænska knattspyrnusambandsins, við Aftonbladet.

Zlatan er 39 ára gamall og leikur með AC Milan þar sem hann hefur skorað 15 mörk í ítölsku A-deildinni á þessu tímabili.

mbl.is