„Afskaplega mikilvægur sigur“

Mikel Arteta.
Mikel Arteta. AFP

Spænski knattspyrnustjórinn Mikel Arteta sagði sína menn í Arsenal hafa unnið afskaplega mikilvægan sigur í kvöld við krítískar aðstæður. 

Arsenal fór til Prag í kvöld og mætti Slavia Prag í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Liðin höfðu gert jafntefli í fyrri leiknum í London en Arsenal vann sannfærandi í kvöld 4:0. 

„Við byrjuðum virkilega vel í leiknum. Vorum ákafir og pressuðum framarlega. Við vorum alltaf ógnandi að mér fannst. Við skoruðum falleg mörk en einnig var jákvætt að halda markinu hreinu. Er það annar leikurinn í röð sem við náum því,“ sagði Arteta í samtali við BT Sport að leiknum loknum. Hann segir að enn sé verk að vinna hjá Arsenal. 

„Þessi sigur var afskaplega mikilvægur í krítískri stöðu og sigurinn var verðskuldaður. Mínir menn eiga því hrós skilið. Enn er verk að vinna og við getum bætt okkur í ýmsu. Löngunin til að verða betri er til staðar og við viljum bæta okkur á degi hverjum. Erfitt verður að mæta Villarreal og Unai Emery [knattspyrnustjórinn] er líklega sá sigursælasti í sögu keppninnar,“ sagði Arteta en Emery stýrði Arsenal frá 2018 til 2019. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert