Rúnar krækti í bikar í Rúmeníu

Rúnar Már Sigurjónsson leikur með CFR Cluj í Rúmeníu.
Rúnar Már Sigurjónsson leikur með CFR Cluj í Rúmeníu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Rúnar Már Sigurjónsson vann í kvöld sinn fyrsta bikar með sínu nýja liði, CFR Cluj í Rúmeníu.

CFR vann FCSB, sem áður hét Steaua, í Meistarakeppni Rúmeníu sem frestað hafði verið í haust. CFR er rúmenskur meistari 2019-20 og FCSB er bikarmeistari frá sama tímabili.

Leikur liðanna endaði með markalausu jafntefli en CFR sigraði í vítaspyrnukeppni, 4:1. Rúnar kom inn á sem varamaður á 83. mínútu og tók ekki þátt í vítaspyrnukeppninni.

Liðin eiga fram undan harðan slag í úrslitakeppninni um rúmenska meistaratitilinn. FCSB var efst með 65 stig en CFR í öðru sæti með 64 að lokinni hefðbundinni deildakeppni, 30 umferðum. Um helgina hefst úrslitakeppni sex efstu liðanna sem taka með sér helming stiganna þannig að FCSB byrjar keppnina með 33 stig en CFR með 32 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert