Skytturnar í undanúrslitin - skutu Slavia í kaf

Granit Xhaka og Alexandre Lacazette fagna eftir að sá síðarnefndi …
Granit Xhaka og Alexandre Lacazette fagna eftir að sá síðarnefndi kom Arsenal í 2:0. AFP

Arsenal sýndi allar sínar bestu hliðar þegar liðið vann öruggan 4:0 útisigur gegn Slavia Prag í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Skytturnar skoruðu þrjú mörk á sex mínútna kafla í fyrri hálfleik og gerðu þar með út um einvígið, sem vannst samanlagt 5:1.

Á 14. mínútu hófst fjörið. Bukayo Saka þrumaði þá boltanum að marki, Ondrej Kolár varði skotið í stöngina og út þar sem Emile Smith Rowe var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið. VAR skoðaði hvort Smith Rowe hefði verið rangstæður þegar Saka skaut og komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði verið. Af endursýningum að dæma var rangstaðan afskaplega tæp.

Fjórum mínútum síðar komst Arsenal hins vegar yfir. Smith Rowe átti skot sem fór í varnarmann, náði boltanum aftur, rúllaði boltanum milli fóta Alexander Bah og til hliðar á Nicolas Pépé sem tók eina snertingu og mokaði boltanum yfir Kolár á nærstönginni, 1:0.

Aðeins tveimur mínútum síðar, á 20. mínútu, fékk Arsenal vítaspyrnu. Eftir snarpa sókn gaf Smith Rowe á Saka og braut Jakub  Hromada á honum innan teigs og víti réttilega dæmt. Alexandre Lacazette steig á vítapunktinn og skoraði af gífurlegu öryggi með því að senda Kolár í vitlaust horn, 2:0.

Arsenal var ekki hætt að þjarma að heimamönnum og bætti við þriðja markinu á 24. mínútu. Saka fékk þá sendingu frá Calum Chambers, fór auðveldlega fram hjá David Zima og skoraði með góðu skoti niður í nærhornið, 3:0.

Þar með lauk mögnuðum 10 mínútna kafla þar sem Arsenal skoraði fjögur mörk, eitt sem var dæmt af en þrjú góð og gild, og liðið sem áður segir þegar búið að gera út um einvígið.

Staðan í hálfleik var 3:0.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri þar sem Slavia reyndi að minnka muninn en þær tilraunir voru ekki til mikils enda áttu leikmenn Arsenal ekki í neinum vandræðum með sóknarlotur heimamanna.

Þrátt fyrir tíðindalítinn síðari hálfleik voru Skytturnar ekki alveg hættar. Á 77. mínútu gaf Pépé á Lacazette, sem var í góðri stöðu í teignum, hann tók frábæra gabbhreyfingu og fór þannig fram hjá bæði Zima og Lukas Masopust og þrumaði svo boltanum í netið, 4:0.

Þá komst varamaðurinn Gabriel Martinelli nálægt því að skora fimmta markið á 86. mínútu en skot hans af stuttu færi eftir góðan sprett fór fram hjá markinu.

Lokatölur því 4:0 og samanlagt 5:1. Arsenal er þar með komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar, þar sem það mætir spænska liðinu Villarreal.

Nicolas Pépé fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Arsenal …
Nicolas Pépé fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Arsenal í Prag í kvöld. AFP
Slavia Prag 0:4 Arsenal opna loka
92. mín. Leik lokið Arsenal flýgur í undanúrslit Evrópudeildarinnar með stæl!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert