Villarreal og Roma í undanúrslitin

Edin Dzeko jafnar fyrir Roma gegn Ajax í kvöld og …
Edin Dzeko jafnar fyrir Roma gegn Ajax í kvöld og þetta mark gerði endanlega út um einvígið. AFP

Villarreal og Roma eru komin í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta þar sem þau fá enska mótherja, eftir að hafa  slegið Dinamo Zagreb og Ajax út í átta liða úrslitunum í kvöld.

Villarreal stóð vel að vígi eftir að hafa sigrað Dinamo 1:0 í fyrri leiknum í Króatíu. Í kvöld komu Paco Alcacer og Gerard Moreno spænska liðinu í 2:0 í fyrri hálfleik og engu breytti þótt Mislav Orsic lagaði stöðuna fyrir Dinamo, 2:1, í seinni hálfleik. Villarreal vann 3:1 samanlagt og mætir Arsenal.

Öllu meiri spenna var í Róm en þangað mætti Ajax með 1:2-ósigur á heimavelli á bakinu. Einvígið var hins vegar galopið eftir að Brian Brobbey kom Hollendingunum yfir í byrjun síðari hálfleiks. Þeir þurftu annað mark en í staðinn jafnaði hinn reyndi Edin Dzeko fyrir Roma á 72. mínútu. Lokatölur 1:1, Roma vann 3:2 samanlagt og mætir Manchester United.

mbl.is