Landsliðsmaður á óskalista Schalke

Guðlaugur Victor Pálsson í landsleik gegn Englandi í september á …
Guðlaugur Victor Pálsson í landsleik gegn Englandi í september á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er á óskalista þýska fyrstudeildarfélagsins Schalke samkvæmt heimildum mbl.is.

Miðjumaðurinn, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Darmstadt í þýsku B-deildinni en samningur hans við þýska félagið rennur út sumarið 2022.

Guðlaugur hefur byrjað tólf leiki í þýsku B-deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk en Darmstadt er í tólfta sæti deildarinnar með 35 stig.

Guðlaugur gekk til liðs við Darmstadt frá Zürich í janúar 2019 en hann hefur einnig leikið fyrir lið á borð við Hibernian í Skotlandi, New York Red Bulls í Bandaríkjunum, NEC í Hollandi, Helsingborg í Svíþjóð og Esbjerg í Danmörku á ferlinum.

Þá hefur hann verið einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins undanfarið árið en hann á að baki 26 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark.

Darmstadt gæti neyðst til að selja Guðlaug í sumar þar sem hann hefur ekki skrifað undir nýjan samning við félagið því annars á félagið það á hættu að missa hann frítt sumarið 2022.

Schalke er sögufrægur klúbbur í Þýskalandi en liðið er í miklum vandræðum í neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 13 stig, 13 stigum frá öruggu sæti, þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu.

Félagið hefur sjö sinnum orðið Þýskalandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert