Birkir skoraði í tapi

Birkir Bjarnason skoraði en það dugði ekki til í dag.
Birkir Bjarnason skoraði en það dugði ekki til í dag. Ljósmynd/Brescia

Birkir Bjarnason var á skotskónum þegar lið hans Brescia laut í lægra haldi, 2:4, gegn Empoli í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu í dag. Þetta var fjórða mark Birkis í deildinni á tímabilinu.

Brescia byrjaði leikinn afar illa og var lent 0:2 undir eftir 17 mínútna leik. Birkir minnkaði muninn í 1:2 á 27. mínútu en Empoli bætti við þriðja markinu skömmu fyrir leikhlé.

Í síðari hálfleik minnkaði Alfredo Donnarumma muninn á ný fyrir Brescia þegar hann skoraði á 72. mínútu en Empoli tryggði sér sigurinn með fjórða markinu á 83. mínútu.

Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn á sem varamaður í liði Brescia á 85. mínútu leiksins, fyrir Birki.

Brescia er eftir tapið í 10. sæti ítölsku B-deildarinnar, fjórum stigum frá Cittadella sem er í áttunda sæti, síðasta umspilssætinu sem gefur möguleika á að komast upp í A-deildina.

mbl.is