Daníel Leó hélt hreinu í mikilvægum sigri – Jökull hélt líka hreinu

Daníel Leó Grétarsson, varnarmaður Blackpool.
Daníel Leó Grétarsson, varnarmaður Blackpool. AFP

Daníel Leó Grétarsson lék fyrstu 76 mínúturnar í hjarta varnarinnar þegar lið hans Blackpool vann sterkan 1:0 sigur gegn Sunderland í ensku C-deildinni í dag.

Daníel Leó lék vel í vörn Blackpool sem endranær. Liðið hefur á að skipa þriðju bestu vörn deildarinnar til þessa.

Blackpool er í harðri baráttu um umspilssæti með það fyrir augum að komast upp í B-deildina og var sigur dagsins mikilvægur áfangi í átt að því markmiði.

Blackpool er eftir sigurinn í 5. sæti deildarinnar, en sæti 3-6 eru umspilssæti. Blackpool er með 68 stig eftir 40 leiki, fimm stigum meira en Charlton Athletic í 7. sætinu.

Sunderland er í 3. sæti deildarinnar með 71 stig og hefði þurft á sigri að halda í baráttunni um að komast beint upp en Hull City og Peterborough United eru í efstu tveimur sætunum með 82 og 79 stig og stefna hraðbyri upp í B-deildina.

Í deildinni fyrir neðan, D-deildinni, lék Jökull Andrésson allan leikinn í liði Exeter City sem gerði markalaust jafntefli gegn Southend United.

Exeter er sömuleiðis í harðri baráttu um að komast upp um deild og er nú í 8. sæti, einu stigi á eftir Newport County í 7. og síðasta umspilssæti D-deildarinnar.

Jökull Andrésson er að spila vel með Exeter.
Jökull Andrésson er að spila vel með Exeter. Ljósmynd/Exeter
mbl.is