Flick hættir með Bayern í sumar

Hansi Flick yfirgefur Bayern München að loknu yfirstandandi leiktímabili.
Hansi Flick yfirgefur Bayern München að loknu yfirstandandi leiktímabili. AFP

Hansi Flick, knattspyrnustjóri Bayern München, hefur tilkynnt að hann sé búinn að biðja forsvarsmenn félagsins að rifta samningi sínum við félagið að loknu yfirstandandi leiktímabili. Flick segist þó ekki vera búinn að semja um að taka við þýska landsliðinu í sumar.

Þetta sagði Flick í viðtali hjá Sky Sports eftir 3:2-sigurinn gegn Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í dag. Þar sagðist hann hafa beðið yfirmenn sína að losa sig undan samningi sínum eftir sigur Bayern gegn París Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í vikunni, þegar Bæjarar féllu úr keppni.

Hann upplýsti hins vegar leikmenn liðsins ekki um ákvörðun sína fyrr en eftir leikinn í Wolfsburg í dag. „Ég sagði liðinu í dag að ég hefði sagt félaginu í vikunni, eftir leikinn í París, að ég vildi losna undan samningi mínum í lok tímabilsins. Það er staðreynd,“ sagði Flick í samtali við Sky.

Hann sagði leikinn gegn Wolfsburg í dag hafa verið mjög erfiðan og sigurinn afar mikilvægan, en einnig fannst honum mikilvægt að fá að tilkynna liðsmönnum fréttirnar í eigin persónu. „Það var mikilvægt fyrir mig að liðið fengi að vita þetta frá mér því það er alls kyns orðrómur á sveimi,“ bætti Flick við.

Spurður út í hvort hann væri að fara að taka við af Joachim Löw sem landsliðsþjálfari Þýskalands í sumar sagði Flick:

„Framtíðin er alls ekki ljós. Auðvitað er þýska landsliðið valkostur sem hver þjálfari verður að taka til greina. En nú verð ég að melta allt fyrst. Síðustu vikur hafa heldur ekki verið auðveldar. Þess vegna var ferlið að segja félaginu og svo liðinu frá þessu ákaflega mikilvægt fyrir mig í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert