Hallbera með fyrirliðabandið í fyrsta leik

Hallbera Guðný Gísladóttir er gífurlegur reynslubolti.
Hallbera Guðný Gísladóttir er gífurlegur reynslubolti. Eggert Jóhannesson

Hallbera Guðný Gísladóttir er með fyrirliðabandið hjá AIK þegar liðið mætir Växjö í fyrsta leik tímabilsins í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag klukkan 11.

Hallbera gekk til liðs við nýliða AIK í byrjun árs frá Val, en AIK vann B-deildina í Svíþjóð á síðasta ári. Sjálf hefur hún sagt að liðið sé ungt og stefni fyrst og fremst að því að halda sér í deildinni þetta tímabilið.

„Þetta er ungt lið og það eru margar að spila í fyrsta skipti í úrvalsdeild. Það verður barátta að halda félaginu uppi. Það er markmiðið. Svo byggjum við ofan á það,“ sagði Hallbera á teams-fjarfundi með blaðamönnum í þarsíðustu viku.

Það þarf því ekki að koma á óvart að treyst sé á mikla leikreynslu og leiðtogahæfileika Hallberu, sem hefur tvívegis áður spilað í sænsku úrvalsveildinni, með Piteå 2012-2013 og Djurgården árið 2017. Auk þess hefur hún leikið 118 A-landsleiki og rúmlega 400 leiki í öllum keppnum hér á landi.

Andrea Mist Pálsdóttir er á mála hjá Växjö og byrjar á varamannabekk liðsins í leiknum í dag.

Uppfært kl. 13.42:
Leikurinn endaði 1:1. Hallbera lék allan leikinn með AIK en Andrea Mist sat allan tímann á varamannabekk Växjö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert