Norwich aftur í úrvalsdeildina

Finninn Teemu Pukki og félagar hans í Norwich City snúa …
Finninn Teemu Pukki og félagar hans í Norwich City snúa aftur í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili. AFP

Norwich City er búið að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni að nýju eftir árs fjarveru. Sætið var tryggt án þess að liðið hafi spilað, þar sem hvorki Swansea City né Brentford geta náð því eftir að hafa bæði gert jafntefli í sínum leikjum í dag.

Norwich féll sem kunnugt er úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en trónir nú á toppi ensku B-deildarinnar með 90 stig eftir 41 leik. Á eftir því kemur Watford með 82 stig eftir 42 leiki, Swansea með 76 stig eftir 42 leiki og Brentford með 74 stig eftir 41 leik.

Norwich er því í afar góðri stöðu og getur með sigri gegn Bournemouth í kvöld farið langt með að tryggja sér B-deildartitilinn.

mbl.is